Við erum það sem við hugsum

Nú er heil vika liðin síðan við spariguggurnar byrjuðum í lífsstílsbreytingu Smartlands og Sporthússins í Kópavogi. Það gekk á ýmsu í vikunni og harðsperrur urðu daglegur vinur minn. Ég fór í ræktina á hverjum degi, hljóp, lyfti, teygði, spriklaði, svitnaði, púlaði og hugsaði þegar ég var við það að gefast upp:"ég get, skal og vil". Fyrir mér er þetta allt ákvörðun og ef hugurinn er ákveðinn í að standa sig þá gerast hlutirnir!

Núna er ég farin að borða frekar hreina fæðu, forðast sykur aðra óhollustu og óþarfa. Millimál eru þarfaþing og ég reyni að fá mér ávexti, möndlur eða prótein reglulega yfir daginn. Ég tek góða blöndu af vítamínum og olíum á morgnana og passa mig að freistast ekki til að bregða útaf planinu mínu. Um helgina fór ég með Kristal og harðfiskpoka í partý, það er nýtt! Og viti menn ég er strax farin að finna mun á fötunum mínum. Það er er líka töluvert mikil hvatning að vigtin er alveg ofsalega góð vinkona mín í þessu öllu saman.

Ein pæling... Það er ótrúlega mikið innprentað í okkur mannfólkið að vilja ekki tapa. Að tapa einhverju er neikvætt eða hálfgerð skömm, það vill enginn vera titlaður "tapari". Við höfum jafnvel tilhneygingu til að fela eða breiða yfir sannleikann ef eitthvað mistekst. En samt sem áður viljum við flest læra af mistökum okkar og gera betur næst ekki satt? Já þetta er flókið!

Tökum smá dæmi: ef við missum eitthvað brothætt eða dýrmætt úr höndunum þá fáum við kítl í magann, auka hjartslög og svitadropa á ennið. Hugurinn endurtekur í sífellu: "ekki brotna... gerðu það ekki brotna!" Af einhverjum orsökum viljum við alls ekki missa þennan tiltekna hlut sama hversu miklu máli hann skiptir okkur í raun og veru. Að "missa eitthvað" hljómar einmitt í mínum huga sem frekar neikvætt orð. Orð sem tengist jafnvel sorg og söknuði. Slíkar tilfinningar viljum við forðast að upplifa ef við fáum einhverju ráðið. 

Með þetta í huga finnst mér furðulegt að við tölum alltaf um að hafa "misst" kíló og það hefur átt sér stað gífurlegt þyngdartap! Væri ekki réttara svona sálfræðilega séð að segjast hafa skilað kílóunum sem við þurftum ekki? Og að við höfum náð gífurlega góðum árangri í þyngdarstjórnun! Þannig væri hægt að koma í veg fyrir söknuð í undirmeðvitundinni og þá myndum við kannski líka losna við að reyna ómeðvitað 
að ná til baka aftur því sem við höfum "misst" eða þess sem við "söknum"! Þetta er auðvitað svolítið djúp pæling hjá mér sem hefur verið að þvælast um í kollinum á mér í langan tíma. Pæling sem á klárlega rétt á sér í mínum huga því ég tel að besti árangurinn náist með skýrum fókus og réttu hugarfari. Því ætla ég að breyta útaf fyrri vana og hugsa sumt alveg upp á nýtt ef svo ber undir. Ég hef engu að tapa!


Ég ætla að skila mínum aukakílóum núna því ég þarf ekki á þeim að halda. 

"Mundu að þú ert það sem þú hugsar" 

Þangað til næst
g...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband