Töfrablanda til breytinga

Það er löngu vitað að lífið breytist til hins betra með réttu hugarfari. Ef við bætum við breyttu mataræði og aukinni hreyfingu fáum við ótrúlega skemmtilega og kraft mikla blöndu sem vert er að prufa. Við getum kallað þessa blöndu lífsstílsbreytingu. Ég fékk mér svona blöndu fyrir 12 vikum með fjórum öðrum hressum skvísum og sé alls ekki eftir því.

Ég myndi aldrei segja að lífsstílsbreyting sé sársaukalaus og létt, alls ekki! Það tekur verulega á að byrja. Breytingar á mataræði geta verið flóknar en á hinn bóginn mjög auðveldar, -þegar þú ert búin að finna þinn takt! Mín upplifun er sú að best sé að gera þetta fyrir sjáfan sig, hinir á heimilinu fylgja með ef þeir vilja. Oftast haga ég til dæmis kvöldmatnum þannig að hann henti öllum sem heima eru, stundum fæ ég mér eitthvað annað og öllum finnst það bara í besta lagi. Ég sit þó auðvitað alltaf við matarborðið eins og aðrir. Kvöldmatartíminn er svolítið heilagur á mínu heimili, þar hittumst við hjónin og börnin og ræðum ævintýri dagsins yfir matnum.

Þau geta verið þung og erfið skrefin að stíga, fyrstu skrefin inn í líkamsræktarstöðina. Ég veit ekki hvað það er endilega, en út frá mér og mínum hugsunum gæti ég giskað á að lítið sjálfsstraust og brotin sjálfsmynd komi við sögu hjá mjög mörgum. Lengi vel fann ég allskonar asnalegar afsakanir svo ég þyrfti ekki að mæta í ræktina. Ég ætla ekki að segja að þær hafi verið alveg út í hött, en þær voru engan vegin óyfirstíganlegar! Sem dæmi átti ég ekki ræktarföt og hlaupaskó, jaa eða líklega átti ég ekkert sem var í tísku ákkúrat þá stundina. Ég var of feit, ég átti lítinn pening, ég var of þung, ég var með of lítið þol, mér var illt í bakinu, ég kunni ekki réttar æfingar, ég var þreytt, það voru allir betri og flottari en ég… Svona get ég haldið áfram. Raunin er þó sú að með því að fara í ræktina þá lagaðist þetta allt! Ég reyndar skrapp í einhverja sportvöruverslun og verslaði mér ræktarföt áður en ég byrjaði!

Í byrjun árs 2015 var ég komin af stað í ræktinni af fullum krafti. Fyrst til að byrja með var erfitt að setjast á klósettið með góðu móti vegna harðsperra. Ég þurfti í alvörunni að sannfæra sjálfa mig um að á klósettið færi ég. Höndunum gat ég varla lyft, mér leið eins og ég væri einhverskonar gúmmídýr því allir útlimir voru hálf skrítnir, fæturnir dúuðu furðulega og hlýddu mér ekki. Ég breyttist líklega í bleika pardusinn á tímabili! Fljótlega fór þetta allt saman að lagast, vöðvarnir byggðust upp, þrek og þol batnaði og ég varð glaðari og ánægðari með sjálfa mig. Maður þarf í rauninni að þrauka fyrstu 2-4 vikurnar og þá fer allt upp á við! Í dag hverf ég inn í draumalandið með lóð í hendinni, teljandi hversu oft ég lyfti! Ég þarf ekki að telja hlaupandi og stökkvandi kindur lengur til að sofna.

Mig langar að mæla með að fólk sem langar að koma sér í betra form kynni sér einkaþjálfun. Ég var alltaf hrædd við að fara í einkaþjálfun, ég hélt hreinlega að það yrði ætlast til of mikils af mér. Það er auðvitað ekki raunin, einkaþjálfarar eru búnir að læra sitt fag og eru þarna algerlega fyrir þig og meta þig og þínar aðstæður! Ég hvet fólk til að standa upp fyrir sjálfu sér og kasta frá sér hræðslunni og byrja! Allt sem þarf til að byrja með er að langa til að bæta líf sitt og tilveru!

Hugarleikfiminni má aldrei gleyma því þar tel ég vera rót allra krafta og velgengni. Þessa setningu hef ég haldið fast í allt árið: „Þegar ég sé einhvern hlaupa hraðar en mig þá álykta ég að hann sé ekki að fara jafn langt og ég ætla.“ Lífið er kannski ekki alltaf dans á rósum og ég auðvitað misjafnlega tilbúin í daginn eða líkamsræktina. Við eigum öll svoleiðis daga. Þrátt fyrir það þá er lífið bara töluvert yndislegt og ég ætla að halda áfram mínu langhlaupi með öllu sem því sem það hefur upp á að bjóða!


"you only regret the workouts you don´t do"

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband