Bloggfærslur mánaðarins, desember 2015

Töfrablanda til breytinga

Það er löngu vitað að lífið breytist til hins betra með réttu hugarfari. Ef við bætum við breyttu mataræði og aukinni hreyfingu fáum við ótrúlega skemmtilega og kraft mikla blöndu sem vert er að prufa. Við getum kallað þessa blöndu lífsstílsbreytingu. Ég fékk mér svona blöndu fyrir 12 vikum með fjórum öðrum hressum skvísum og sé alls ekki eftir því.

Ég myndi aldrei segja að lífsstílsbreyting sé sársaukalaus og létt, alls ekki! Það tekur verulega á að byrja. Breytingar á mataræði geta verið flóknar en á hinn bóginn mjög auðveldar, -þegar þú ert búin að finna þinn takt! Mín upplifun er sú að best sé að gera þetta fyrir sjáfan sig, hinir á heimilinu fylgja með ef þeir vilja. Oftast haga ég til dæmis kvöldmatnum þannig að hann henti öllum sem heima eru, stundum fæ ég mér eitthvað annað og öllum finnst það bara í besta lagi. Ég sit þó auðvitað alltaf við matarborðið eins og aðrir. Kvöldmatartíminn er svolítið heilagur á mínu heimili, þar hittumst við hjónin og börnin og ræðum ævintýri dagsins yfir matnum.

Þau geta verið þung og erfið skrefin að stíga, fyrstu skrefin inn í líkamsræktarstöðina. Ég veit ekki hvað það er endilega, en út frá mér og mínum hugsunum gæti ég giskað á að lítið sjálfsstraust og brotin sjálfsmynd komi við sögu hjá mjög mörgum. Lengi vel fann ég allskonar asnalegar afsakanir svo ég þyrfti ekki að mæta í ræktina. Ég ætla ekki að segja að þær hafi verið alveg út í hött, en þær voru engan vegin óyfirstíganlegar! Sem dæmi átti ég ekki ræktarföt og hlaupaskó, jaa eða líklega átti ég ekkert sem var í tísku ákkúrat þá stundina. Ég var of feit, ég átti lítinn pening, ég var of þung, ég var með of lítið þol, mér var illt í bakinu, ég kunni ekki réttar æfingar, ég var þreytt, það voru allir betri og flottari en ég… Svona get ég haldið áfram. Raunin er þó sú að með því að fara í ræktina þá lagaðist þetta allt! Ég reyndar skrapp í einhverja sportvöruverslun og verslaði mér ræktarföt áður en ég byrjaði!

Í byrjun árs 2015 var ég komin af stað í ræktinni af fullum krafti. Fyrst til að byrja með var erfitt að setjast á klósettið með góðu móti vegna harðsperra. Ég þurfti í alvörunni að sannfæra sjálfa mig um að á klósettið færi ég. Höndunum gat ég varla lyft, mér leið eins og ég væri einhverskonar gúmmídýr því allir útlimir voru hálf skrítnir, fæturnir dúuðu furðulega og hlýddu mér ekki. Ég breyttist líklega í bleika pardusinn á tímabili! Fljótlega fór þetta allt saman að lagast, vöðvarnir byggðust upp, þrek og þol batnaði og ég varð glaðari og ánægðari með sjálfa mig. Maður þarf í rauninni að þrauka fyrstu 2-4 vikurnar og þá fer allt upp á við! Í dag hverf ég inn í draumalandið með lóð í hendinni, teljandi hversu oft ég lyfti! Ég þarf ekki að telja hlaupandi og stökkvandi kindur lengur til að sofna.

Mig langar að mæla með að fólk sem langar að koma sér í betra form kynni sér einkaþjálfun. Ég var alltaf hrædd við að fara í einkaþjálfun, ég hélt hreinlega að það yrði ætlast til of mikils af mér. Það er auðvitað ekki raunin, einkaþjálfarar eru búnir að læra sitt fag og eru þarna algerlega fyrir þig og meta þig og þínar aðstæður! Ég hvet fólk til að standa upp fyrir sjálfu sér og kasta frá sér hræðslunni og byrja! Allt sem þarf til að byrja með er að langa til að bæta líf sitt og tilveru!

Hugarleikfiminni má aldrei gleyma því þar tel ég vera rót allra krafta og velgengni. Þessa setningu hef ég haldið fast í allt árið: „Þegar ég sé einhvern hlaupa hraðar en mig þá álykta ég að hann sé ekki að fara jafn langt og ég ætla.“ Lífið er kannski ekki alltaf dans á rósum og ég auðvitað misjafnlega tilbúin í daginn eða líkamsræktina. Við eigum öll svoleiðis daga. Þrátt fyrir það þá er lífið bara töluvert yndislegt og ég ætla að halda áfram mínu langhlaupi með öllu sem því sem það hefur upp á að bjóða!


"you only regret the workouts you don´t do"

 

 


Já ég er bara mannleg!

Það er óveður fyrir utan gluggann minn. Það er líka óveður innra með mér, óveður sem enginn sér. Það eru freistingar allstaðar, hvert sem ég lít, hvert sem ég fer.. Allstaðar! Það mátti auðvitað búast við því í desember, engu að síður er skellurinn sem desember er erfiður. Ef ég skoða facebook sé ég endalaust af girnilegum myndum af tertum, smákökum og mat. Ef mig dettur í hug að horfa á sjónvarpið hrannast inn hugmyndir í kollinn minn af bragðgóðu malti og appelsíni, girnilegum mat og þar fram eftir götunum. Það er líka konfekt í boði út um allt allstaðar, konfektið ásækir mig, kallar á mig og það vill mig... Nú er púkinn minn algerlega í essinu sínu! 

Jæja ég er bara mannleg, ég lét undan í gær. Það var tekið kósýkvöld á þetta með fjölskyldunni, jólabíó, kertaljós og knús. Ég hámaði í mig Stjörnu ostapopp og fékk mér súkkulaði og konfekt frá honum Nóa Siríus gamla. Þessu var auðvitað öllu skolað niður með hæfilega miklu af... vatni! Eins og mér þykir malt og appelsín gott þá er ég dauðfegin að hafa ekki opnað flöskuna sem bíður spennt eftir mér í ískápnum. Hún verður klárlega opnuð á jólunum! Súkkulaðið var samt pínu gott og svolítið vont. Það var reyndar aðallega vont í dag því maginn á mér fór í verkfall og grét hástöfum af sársauka, ætli sykurinn hafi ekki haft þessi áhrif?!

Nú þarf ég að setjast niður og ræða málin við púkann og engilinn. Jólin eru framundan og þá þarf að vanda sig, velja vel hvað og hvernig ég ætla að borða. Ekki ætla ég að missa af jólunum í allri sinni dýrð. Ekki ætla ég að liggja með magapínu af óhollustu áti heldur. Ég líklega lærði ýmislegt eftir gærkvöldið, ætli það hafi ekki bara verið gott að ég fékk mér óhóflega mikið af súkkulaði í gær? Það hefði verið verra að eyða aðfangdagskvöldi í magakrampa!

Óveðrið innra með mér einskorðast þó ekki einungis við þennan púkadans. Fyrir nokkrum dögum þurfti ég í litla aðgerð. Eftir aðgerðina tilkynnti læknirinn mér að ég yrði að vera allavega í viku frá líkamsrækt og í þrjár vikur mætti ég ekki fara í sund. Þessar fréttir voru óneitanlega ekki gleðifréttir miðað við að tvær vikur voru þá eftir af lífsstílsbreytingunni minni með Smartlandi Mörtu Maríu og Sporthúsinu í Kópavogi. Ég áttaði mig þó á að tærnar þyrfti ég að setja upp í loft og telja niður dagana þar til ég mætti fara í ræktina.

Síðustu daga hef ég semsagt talið dagana þar til ég má fara af stað aftur. Mínir nánustu hafa reyndar þurft að skamma mig aftur í sætið nokkru sinnum, ég var auðvitað á leiðinni út og ætlaði að sjálfsögðu beint í ræktina, -bara gera smá. Það er alltaf gott að eiga góða að sem hafa vitið fyrir manni. Ég ætla samt að svindla pínu og fara fyrr af stað, við skulum bara vona að læknirinn lesi þetta ekki! 

Eitt er þó ótrúlega fyndið og skrítið í þessu öllu saman. Ekki fyrir svo löngu voru sömu einstaklingar að reyna að lokka mig úr sætinu til að fara í ræktina. Þá mátti ég það en langaði bara alls ekki! 

Fyrir um korteri lagði ég af stað í 12 vikna ferðalag með nokkrum frábærum konum, konum sem mér er farið að þykja svo óendanlega vænt um. Nú er aðeins rúm ein vika eftir af "þessu" ferðalagi okkar. Æjj hvað tíminn líður, hann feikist um og flýgur út í buskann líkt og óveðrið inni í mér.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband