Ég datt í lukkupottinn

Tíminn líður hratt á gervihnattaöld söng einhver einhverntíman fyrir löngu. Þessi orð lýsa vel síðustu vikum hjá mér enda mikið búið að vera að gera og mig jafnvel vantað nokkrar klukkustundir í sólahringinn. Nú loksins hef ég fundið tíma til að setjast niður til að skrifa nokkur vel valin orð á annars tómt skjalið á tölvuskjánum. Dagarnir hafa verið yfirfullir af vinnu, skóla, tónlist, líkamsrækt, matarhugleiðingum og ótal öðrum skemmtilegum og mikilvægum hlutum. Ég er nefnilega svona manneskja sem er mjög dugleg að hafa fullt að gera og þrífst best þegar stundaskráin mín er yfirfull. Samt þarf ég að gera allt ofur vel.  Já þeir sem þekkja mig vita um hvað ég er að tala!

12027305_10153709540683158_3626332992069154719_oEinhverntíman óskaði ég mér þess að detta í lukkupottinn. Ég veit svo sem ekki alveg hvaða lukkupott, mig langaði bara til að vera heppin; vinna eitthvað merkilegt. Í dag er ég nokkuð viss um að ég hafi dottið í lukkupottinn án þess í rauninni að hafa áttað mig á því þegar það gerðist. Já og nú skal ég útskýra það nánar. Í janúar 2015 tók ég ákvörðun um að nú væri árið komið sem ég þyrfti virkilega að huga að breyttum lífsstíl. Ef ég héldi áfram á sömu braut þá myndi ég enda sem óánægð gömul og þreytt kona fyrir aldur fram, með of mörg aukakíló og allskonar líkamlega kvilla.  Nokkrum árum áður hafði ég verið greind með vefjagigt, ég glímdi við svefnörðugleika, fékk slæma bakverki, var með vöðvabólgu á háu stigi, fékk vonda höfuðverki og svo virtust fötin mín alltaf vera að minnka. Lífið og tilveran fölnaði hægt og rólega án þess að ég í rauninni gerði mér grein fyrir því. Oft hafði ég tekið mig á, náð ágætum árangri og dottið svo aftur í sama farið. Fljótlega eftir hvert fall virtust kílóin mín þyngjast og málbandið mitt hlaut að vera orðið eitthvað vitlaust. Þetta var orðinn endalaus tilfinningarússíbani af áhyggjum um allt og allt. Það var bara svo erfitt að viðurkenna það fyrir sjálfri mér að ég þyrfti raunverulega að taka mig á og að framtíðin og heilsan væru í húfi.


2015 rann upp og ég búin að taka ákvörðun, daman ætlaði í einkaþjálfun sem ég og gerði. Skrefin voru þung, stór og erfið fyrstu vikurnar. Fljótlega fór þó að bera á að skrefin urðu léttari, það varð jafnvel breyting dag frá degi, ég varð ánægðari með sjálfa mig og var farin að finna fyrir tilhlökkun á leið í ræktina. Ég hætti meira að segja að nota aðhaldsbolinn undir ræktarbolinn og fór fyrir alvöru að takast á við mín vandamál. Tveimur mánuðum síðar voru 10 kíló fokin, 34 cm horfnir, bakið orðið stæltara og ég farin að trúa því að ég gæti í alvöru komist aftur í gott form. Áfram hélt ég ótrauð fram á sumar og endaði með að koma sjálfri mér mikið á óvart með því að hlaupa 5 kílómetra hlaup á rúmum hálftíma. Svo fór ég bara í sumarfrí og gleymdi mér alveg í sumargleðinni!

Haustið kom í allri sinni litadýrð en minna var um ferðir í ræktina. Ég bara kom mér ekki af stað aftur eftir sumarið „á morgun fer ég í ræktina“ hugsaði ég daglega, en svo leið sá dagur og dagurinn þar á eftir og þar á eftir... Bakið fór að stríða mér aftur, skrefin urðu þyngri og vegurinn í ræktina virtist lengjast á hverjum degi. Það var þá sem ég fékk símtalið frá Mörtu Maríu og það var þá sem hún tjáði mér að ég hefði verið valin til að vera með í lífsstílsbreytingu Smartlands og Sporthússins. Ég held að fáir geri sér í raun grein fyrir hversu fáránlega rétt tímasetning á símtali þetta var fyrir mig. Vegalengdin í Sporthúsið í Kópavogi er kannski örlítið lengri en í Sportstöðina á Selfossi, það var bara þetta sem ég þurfti á þessum tímapunkti, ég vissi það strax!

Í dag er ég með nokkuð fastmótað matarplan, ég hreyfi mig reglulega, stundum tvisvar á dag ef mig langar til þess. Ég fer tvisvar í viku til Reykjavíkur í Sporthúsið og á móti fer ég í ræktina á Selfossi. Við stelpurnar í lífsstílsbreytingunni hittum einkaþjálfarann okkar hana Lilju Ingvadóttur tvisvar í viku og tökum góða klukkutíma æfingu með tilheyrandi svita og látum. Á móti hef ég valið skemmtilega blöndu af hóptímum líkt og zoomba, body balance og cxworx. Þegar ég er ofur dugleg tek ég auka brennslu á hlaupabrettinu eða í tækjasalnum og fer sem oftast í góðan göngutúr með eiginmanninum og börnunum. Nú eru fötin mín farin að stækka og ég er ekki frá því að bráðum fari að glitta aftur í magavöðvana mína! Lífið er bara töluvert yndislegt.

Við mannfólkið lifum stundum ótrúlega flóknu lífi og vonumst of oft eftir því að vandamálin lagist á einhvern furðulegan hátt, töfralausnir finnist á okkar ólíklegustu vandamálum eða hreinlega óskum við þess að detta í lukkupottinn. Lukkupotturinn minn var ég sjálf. Ég tók ákvörðun um að byrja, ég tók ákvörðun um að sækja um í lífsstílsbreytingunni og það er líka mín ákvörðun á endanum að komast á topp tilveru minnar. Ég er bara svo heppin að hafa fjölda fólks í kringum mig sem er til í að leiðbeina mér áleiðis. Mín orð til þín eru ævaforn og voru rituð upphaflega af Rómverskum kennara og skáldi að nafni Decimius Magnus Ausonius , orðin eru til þín sem langar að taka ákvörðun, þau eru til þín sem telur þig ekki geta það sem þig langar: "Byrjaðu. Hálfnað verk þá hafið er. Þá er helmingurinn enn eftir. Byrjaðu aftur og þú hefur lokið verkinu".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir hvatninguna :)

:) (IP-tala skráð) 28.10.2015 kl. 01:07

2 Smámynd: Guðný Lára Gunnarsdóttir

takk fyrir að lesa og gangi þér vel! :)

Guðný Lára Gunnarsdóttir, 16.12.2015 kl. 09:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband