Ég er sjálfselsk!

Það er með þakklæti og stolti sem ég lít til baka yfir árið 2015, enda ekki annað hægt. Loksins kom árið mitt, árið sem ég hugsaði um sjálfa mig án þess að hafa áhyggjur af að vera stimpluð sjálfselsku púki dauðans. Þeir sem telja mig vera sjálfselsku púka verða endilega að halda áfram að lesa!
Fyrir mér hefur orðið sjálfselska alltaf verið neikvætt orð, eitthvað sem enginn vill láta kalla sig. Ég hef ákveðið að setja jákvæðari skilning í það, því við þurfum öll að vera örlítið sjálfselsk til að færast nær okkar takmarki. Því má með sanni segja að ég hafi tekið árið með sjálselsku púkanum mínum, ég setti mig í fyrsta sætið og hugsaði um mig!

Margir hafa spurt mig hvernig ég höndlaði jólin. Ég get með hreinni samvisku sagt að þau voru „piece of cake“.  Mataræðið varð ögn skrautlegra yfir aðal hátíðarnar, en samt missti ég mig ekki neitt svakalega mikið. Ég fann það strax að mig langaði til að halda þeirri rútínu sem ég hafði verið í fyrir jól. Ég nýtti því hvert tækifæri sem ég hafði, fór í ræktina og passaði mataræðið. Í rauninni þurfti ég samt varla að passa mig því eftir 12 vikna lífsstílsbreytingu hafði svo margt breyst og ég búin að koma mér upp nýjum siðum og venjum.  Enda hef ég haldið áfram að skila af mér óþarfa kílóum á nýju ári og brosi alveg hringinn! Árið 2015 skilaði ég um 17 kílóum í heildina og hef enn all nokkur í viðbót til þess að skila.

Ferðalagið mitt heldur því áfram á nýju ári þó svo að opinberlega sé lífsstílsbreytingin á vegum Sporthússins og Smartlands á enda. Við stelpurnar, ræktar systurnar, höldum einnig hópinn og höfum planað að hittast áfram og mæta saman í mælingar hjá Lilju Ingavadóttur einkaþjálfara. Það er bara ekki hægt að sleppa takinu af þessum frábæru stelpum! Takk Takk takk fyrir mig endalaust  ég er svo óendanlega heppin að hafa fengið að kynnast ykkur öllum.

Annars hef ég nýjar fréttir sem eru alveg pínu spennandi. Ég og þrjár vinkonur mínar tókum okkur saman og stofnuðum lokaðann facebook hóp. Markmiðið er að öðlast enn meiri orku og heilbrigði á 45 dögum. Þarna hvetjum við og hrósum hvorri annarri, setjum inn árangurs myndir, ræðum mataræðið og æfingar svo fátt eitt sé nefnt. Við erum nýlega byrjaðar og mér sýnist á öllu að þetta fari vel af stað. Þetta er líka mjög sniðug leið þar sem við höfum afskaplega gott af hvatningu en komumst kannski ekki alveg alltaf á sama tíma í ræktina. Eftir þessa 45 daga er svo hugmyndin að „tríta“ okkur vel og skella okkur á Íslandsmeistaramótið í Fitness.


Í dag er ég ótrúlega stolt og hamingjusöm kona sem stefnir ótrauð áfram! Í gegnum þetta ferðalag hef ég fengið afskaplega falleg hvatningarorð, bæði frá ættingjum, vinum og ókunnugu fólki. Mér þykir mjög vænt um þessi orð og geymi þau hjá mér. Þið vitið hver þið eruð!

Fyrst og síðast tók ég ákvörðun um að vilja breyta mínum lífsstíl fyrir sjálfa mig.  Líklega hefði ég ekki farið langt ef mig hefði vantað ást frá sjálfri mér... En það er einmitt kannski það sem ég lærði nýtt árið 2015 –að elska sjálfa mig! Sjálfselsk? Það verður þá bara að hafa það!


Töfrablanda til breytinga

Það er löngu vitað að lífið breytist til hins betra með réttu hugarfari. Ef við bætum við breyttu mataræði og aukinni hreyfingu fáum við ótrúlega skemmtilega og kraft mikla blöndu sem vert er að prufa. Við getum kallað þessa blöndu lífsstílsbreytingu. Ég fékk mér svona blöndu fyrir 12 vikum með fjórum öðrum hressum skvísum og sé alls ekki eftir því.

Ég myndi aldrei segja að lífsstílsbreyting sé sársaukalaus og létt, alls ekki! Það tekur verulega á að byrja. Breytingar á mataræði geta verið flóknar en á hinn bóginn mjög auðveldar, -þegar þú ert búin að finna þinn takt! Mín upplifun er sú að best sé að gera þetta fyrir sjáfan sig, hinir á heimilinu fylgja með ef þeir vilja. Oftast haga ég til dæmis kvöldmatnum þannig að hann henti öllum sem heima eru, stundum fæ ég mér eitthvað annað og öllum finnst það bara í besta lagi. Ég sit þó auðvitað alltaf við matarborðið eins og aðrir. Kvöldmatartíminn er svolítið heilagur á mínu heimili, þar hittumst við hjónin og börnin og ræðum ævintýri dagsins yfir matnum.

Þau geta verið þung og erfið skrefin að stíga, fyrstu skrefin inn í líkamsræktarstöðina. Ég veit ekki hvað það er endilega, en út frá mér og mínum hugsunum gæti ég giskað á að lítið sjálfsstraust og brotin sjálfsmynd komi við sögu hjá mjög mörgum. Lengi vel fann ég allskonar asnalegar afsakanir svo ég þyrfti ekki að mæta í ræktina. Ég ætla ekki að segja að þær hafi verið alveg út í hött, en þær voru engan vegin óyfirstíganlegar! Sem dæmi átti ég ekki ræktarföt og hlaupaskó, jaa eða líklega átti ég ekkert sem var í tísku ákkúrat þá stundina. Ég var of feit, ég átti lítinn pening, ég var of þung, ég var með of lítið þol, mér var illt í bakinu, ég kunni ekki réttar æfingar, ég var þreytt, það voru allir betri og flottari en ég… Svona get ég haldið áfram. Raunin er þó sú að með því að fara í ræktina þá lagaðist þetta allt! Ég reyndar skrapp í einhverja sportvöruverslun og verslaði mér ræktarföt áður en ég byrjaði!

Í byrjun árs 2015 var ég komin af stað í ræktinni af fullum krafti. Fyrst til að byrja með var erfitt að setjast á klósettið með góðu móti vegna harðsperra. Ég þurfti í alvörunni að sannfæra sjálfa mig um að á klósettið færi ég. Höndunum gat ég varla lyft, mér leið eins og ég væri einhverskonar gúmmídýr því allir útlimir voru hálf skrítnir, fæturnir dúuðu furðulega og hlýddu mér ekki. Ég breyttist líklega í bleika pardusinn á tímabili! Fljótlega fór þetta allt saman að lagast, vöðvarnir byggðust upp, þrek og þol batnaði og ég varð glaðari og ánægðari með sjálfa mig. Maður þarf í rauninni að þrauka fyrstu 2-4 vikurnar og þá fer allt upp á við! Í dag hverf ég inn í draumalandið með lóð í hendinni, teljandi hversu oft ég lyfti! Ég þarf ekki að telja hlaupandi og stökkvandi kindur lengur til að sofna.

Mig langar að mæla með að fólk sem langar að koma sér í betra form kynni sér einkaþjálfun. Ég var alltaf hrædd við að fara í einkaþjálfun, ég hélt hreinlega að það yrði ætlast til of mikils af mér. Það er auðvitað ekki raunin, einkaþjálfarar eru búnir að læra sitt fag og eru þarna algerlega fyrir þig og meta þig og þínar aðstæður! Ég hvet fólk til að standa upp fyrir sjálfu sér og kasta frá sér hræðslunni og byrja! Allt sem þarf til að byrja með er að langa til að bæta líf sitt og tilveru!

Hugarleikfiminni má aldrei gleyma því þar tel ég vera rót allra krafta og velgengni. Þessa setningu hef ég haldið fast í allt árið: „Þegar ég sé einhvern hlaupa hraðar en mig þá álykta ég að hann sé ekki að fara jafn langt og ég ætla.“ Lífið er kannski ekki alltaf dans á rósum og ég auðvitað misjafnlega tilbúin í daginn eða líkamsræktina. Við eigum öll svoleiðis daga. Þrátt fyrir það þá er lífið bara töluvert yndislegt og ég ætla að halda áfram mínu langhlaupi með öllu sem því sem það hefur upp á að bjóða!


"you only regret the workouts you don´t do"

 

 


Já ég er bara mannleg!

Það er óveður fyrir utan gluggann minn. Það er líka óveður innra með mér, óveður sem enginn sér. Það eru freistingar allstaðar, hvert sem ég lít, hvert sem ég fer.. Allstaðar! Það mátti auðvitað búast við því í desember, engu að síður er skellurinn sem desember er erfiður. Ef ég skoða facebook sé ég endalaust af girnilegum myndum af tertum, smákökum og mat. Ef mig dettur í hug að horfa á sjónvarpið hrannast inn hugmyndir í kollinn minn af bragðgóðu malti og appelsíni, girnilegum mat og þar fram eftir götunum. Það er líka konfekt í boði út um allt allstaðar, konfektið ásækir mig, kallar á mig og það vill mig... Nú er púkinn minn algerlega í essinu sínu! 

Jæja ég er bara mannleg, ég lét undan í gær. Það var tekið kósýkvöld á þetta með fjölskyldunni, jólabíó, kertaljós og knús. Ég hámaði í mig Stjörnu ostapopp og fékk mér súkkulaði og konfekt frá honum Nóa Siríus gamla. Þessu var auðvitað öllu skolað niður með hæfilega miklu af... vatni! Eins og mér þykir malt og appelsín gott þá er ég dauðfegin að hafa ekki opnað flöskuna sem bíður spennt eftir mér í ískápnum. Hún verður klárlega opnuð á jólunum! Súkkulaðið var samt pínu gott og svolítið vont. Það var reyndar aðallega vont í dag því maginn á mér fór í verkfall og grét hástöfum af sársauka, ætli sykurinn hafi ekki haft þessi áhrif?!

Nú þarf ég að setjast niður og ræða málin við púkann og engilinn. Jólin eru framundan og þá þarf að vanda sig, velja vel hvað og hvernig ég ætla að borða. Ekki ætla ég að missa af jólunum í allri sinni dýrð. Ekki ætla ég að liggja með magapínu af óhollustu áti heldur. Ég líklega lærði ýmislegt eftir gærkvöldið, ætli það hafi ekki bara verið gott að ég fékk mér óhóflega mikið af súkkulaði í gær? Það hefði verið verra að eyða aðfangdagskvöldi í magakrampa!

Óveðrið innra með mér einskorðast þó ekki einungis við þennan púkadans. Fyrir nokkrum dögum þurfti ég í litla aðgerð. Eftir aðgerðina tilkynnti læknirinn mér að ég yrði að vera allavega í viku frá líkamsrækt og í þrjár vikur mætti ég ekki fara í sund. Þessar fréttir voru óneitanlega ekki gleðifréttir miðað við að tvær vikur voru þá eftir af lífsstílsbreytingunni minni með Smartlandi Mörtu Maríu og Sporthúsinu í Kópavogi. Ég áttaði mig þó á að tærnar þyrfti ég að setja upp í loft og telja niður dagana þar til ég mætti fara í ræktina.

Síðustu daga hef ég semsagt talið dagana þar til ég má fara af stað aftur. Mínir nánustu hafa reyndar þurft að skamma mig aftur í sætið nokkru sinnum, ég var auðvitað á leiðinni út og ætlaði að sjálfsögðu beint í ræktina, -bara gera smá. Það er alltaf gott að eiga góða að sem hafa vitið fyrir manni. Ég ætla samt að svindla pínu og fara fyrr af stað, við skulum bara vona að læknirinn lesi þetta ekki! 

Eitt er þó ótrúlega fyndið og skrítið í þessu öllu saman. Ekki fyrir svo löngu voru sömu einstaklingar að reyna að lokka mig úr sætinu til að fara í ræktina. Þá mátti ég það en langaði bara alls ekki! 

Fyrir um korteri lagði ég af stað í 12 vikna ferðalag með nokkrum frábærum konum, konum sem mér er farið að þykja svo óendanlega vænt um. Nú er aðeins rúm ein vika eftir af "þessu" ferðalagi okkar. Æjj hvað tíminn líður, hann feikist um og flýgur út í buskann líkt og óveðrið inni í mér.


Ár breytinga

Árið 2015 er ár hugarfarsbreytinga hjá sjálfri mér. Árið sem ég stóð upp og viðurkenndi mig sigraða. Árið sem ég viðurkenndi að ég þyrfti aðstoð til að komast á rétta braut í annars skemmtilegu ferðalagi sem lífið er. Það hefur svo margt breyst við þessa ákvörðun mína, ég er sjálf í rauninni steinhissa á því þegar ég horfi til baka. Ég væri að ljúga ef ég segði að þetta væri ofur einfalt og alls ekki erfitt. Sannleikurinn er sá að ég hef fundið jákvæðan mun á mér bæði andlega og líkamlega milli vikna og það minnir mig á að ég er að gera eitthvað rétt! Árið mitt byrjaði í einkaþjálfun hjá Fríðu Steinarsdóttur í Sportstöðinni á Selfossi, ég mæli algerlega 100% með henni. Svo tók Lilja Ingvadóttir "ofursparigugga" við mér hjá Sporthúsinu í Kópavogi. Hún er snillingur sem vert er að leita til því hún var sjálf fyrir nokkrum árum með of mörg aukakíló í eftirdragi og kann öll trixin í bókinni.

Lífið og tilveran er órúlegt og spennandi ferðalag. Ferðalag sem er uppfullt af allskonar samferðafólki, upplifunum, upákomum, sorgum, gleði og sigrum. Sumu getum við ráðið og valið sjálf en svo eru aðrir hlutir og upplifanir sem við fáum alls ekki að velja fyrir okkar ferðalag. Ég hef töluvert verið að hugsa um ákkúrat þessa hluti undanfarið, þessa hluti og uppákomur sem bíða okkar handan við hornið og birtast okkur jafnvel þegar síst skyldi. Líklega væri hægt að búa til góða Hollywood mynd um það sem drifið hefur á mína daga, en það er önnur saga! Við mannfólkið erum tilfinningaverur og allar stærri uppákomur í okkar lífi hafa án efa mikil áhrif á okkur andlega og líkamlega. Og þar langar mig að staldra aðeins við og skoða sjálfa mig.  

Í kringum flesta erfiðleika og stærri viðburði í mínu lífi hef ég sóst í að leita huggunar í mat. Ég hef sannfært sjálfa mig um að ég eigi svo sannarlega skilið að fá mér einn feitann hamborgara, ég hafi gott af því að hafa kósýkvöld með fullt af nammi og góðri bíómynd eða það lagist allt með pizzakvöldi í faðmi vina og fjölskyldu. Matarlystin hefur verið lítil allan daginn, ég hef jafnvel ekkert borðað þar til ég hef troðið í mig einhverju seinnipart dags. Ég er viss um að margir kannist við svona mynstur. Svo talar púkinn á öxlinni við mig og segir: "þetta er allt í lagi þú ert ekkert búin að borða í allan dag, þú verður að næra þig!" Þegar svona hefur staðið á í mínu lífi hef ég alltaf trúað púkanum þó svo að undir niðri viti ég auðvitað betur.

Ég get reyndar viðurkennt að ég hef alltaf átt í erfiðleikum með að halda góðri rútínu á mínum matarvenjum. Þá meina ég að borða reglulega yfir daginn frá því ég vakna. Allt of oft hef ég sleppt morgunmat og jafnvel líka hádegismat. Loksins þegar ég finn þörf fyrir að borða þá sækist ég í fæðu sem kýlir upp blóðsykurinn og gefur mér snögga orku. Við vitum öll að sú fæða hlýtur að vera rík af kolvetnum! 

Marg oft hef ég byrjað í einhverjum megrunarkúrum og alltaf leitað eftir einhverjum töfralausnum sem ættu helst að virka fljótt og vel. Kílóin ættu auðvitað helst að hrynja af mér einn tveir og bingó og ég að hafa sem minnst fyrir því. Draumur ekki satt? Það finnst púkanum mínum á öxlinni allavegana því þá fær hann klárlega að njóta sín í botn.

Púkagreyið mitt á erfitt þessa dagana því það er svo lítið hlustað á hann, þó svo að lífið bjóði upp á allskonar uppákomur þá held ég mínu striki. Púkinn horast niður hægt og rólega og hann hlýtur að fara að játa sig sigraðann fljótlega. Í dag passa ég mig nefnilega á að fá mér alltaf morgunmat, ég tek inn vítamín og góðar olíur, fæ mér ávexti, möndlur og prótein í milli mál og borða helst tvisvar á dag grænmeti, salat, kjöt og fisk. Ég forðast brauð, sykur, hveiti, nammi og þess háttar. Ég reyndar leyfi mér einn nammidag í viku og hlakka til hans alla vikuna. Á nammideginum borða ég eins og venjulega þar til um kvöldmat þá fæ ég mér það sem mig langar að borða og um kvöldið má alveg fá sér ís og jafnvel smá nammi, ég passa mig bara að missa mig ekki alveg! Galdurinn er að vera skipulagður og undirbúa daginn fyrir fram, taka nesti í vinnuna og láta ekki undan  öllum freistingunum sem verða á vegi manns. Púkinn minn reynir reglulega að plata mig út í einhverja vitleysu en ég sigra hann nú oftast. Enda er hann að horast blessaður!

Hreyfing er stór þáttur í minni vellíðan í dag. Ég mæti í einkaþjálfun tvo daga vikunnar og að öllu jöfnu reyni ég að fara í ræktina 5-6 daga vikunnar. Auðvitað koma dagar sem eru erfiðari, ég löt og "nennið mitt" eitthvað bilað, annars væri ég ekki mannleg. Þannig dagar líða hjá og áfram heldur ferðalagið. Oftast plata ég mig meira að segja af stað og kem endurnærð heim eftir gott púl í ræktinni. Um daginn var ég einmitt eitthvað ofur þreytt og steinsofnaði í sófanum mínum góða. Ég hrökk upp og áttaði mig á að zumba tíminn var byrjaður sem ég fer alltaf í. Í stað þess að loka augunum aftur og koma mér betur fyrir henti ég mér af stað með maskarann út á kinnar og æddi í tímann. Enda var ég ofur ánægð eftir á með sveitta og þreytta mig! Gullna reglan er að mæta því þá gerast hlutirnir.

Mig langar að ráðleggja þeim sem vilja komast í betra form að hugsa það sem langferð; góðir hlutir gerast hægt! Á þessu ári hafa tveir frábærir einkaþjálfara aðstoðað mig í átt að betra eintaki af sjálfri mér. Ég veit það núna að ég gerði það allra réttasta er ég tók þá ákvörðun að fara í einkaþjálfun. Það var stórt skref fyrir mig sem hefur borgað sig stórlega. Á 11 mánuðum hef ég ekki bara skilað 14 kílóum því ég er búin að styrkja mig all svakalega og auka þolið svo um munar. Ég sef betur og hef meiri trú á sjálfri mér og öllu því sem ég tek mér fyrir hendur! 

Ef þú vilt fá meiri orku og vellíðan, betra sjálfstraust og vera hreinlega glaðari og ánægðari með lífið og tilveruna byrjaðu þá þína langferð í dag! Mín hvatningar orð koma enn og aftur frá Lilju Ingavdóttur: „Láttu ekki skammtíma gleði koma í veg fyrir langtíma vellíðan“


Ég datt í lukkupottinn

Tíminn líður hratt á gervihnattaöld söng einhver einhverntíman fyrir löngu. Þessi orð lýsa vel síðustu vikum hjá mér enda mikið búið að vera að gera og mig jafnvel vantað nokkrar klukkustundir í sólahringinn. Nú loksins hef ég fundið tíma til að setjast niður til að skrifa nokkur vel valin orð á annars tómt skjalið á tölvuskjánum. Dagarnir hafa verið yfirfullir af vinnu, skóla, tónlist, líkamsrækt, matarhugleiðingum og ótal öðrum skemmtilegum og mikilvægum hlutum. Ég er nefnilega svona manneskja sem er mjög dugleg að hafa fullt að gera og þrífst best þegar stundaskráin mín er yfirfull. Samt þarf ég að gera allt ofur vel.  Já þeir sem þekkja mig vita um hvað ég er að tala!

12027305_10153709540683158_3626332992069154719_oEinhverntíman óskaði ég mér þess að detta í lukkupottinn. Ég veit svo sem ekki alveg hvaða lukkupott, mig langaði bara til að vera heppin; vinna eitthvað merkilegt. Í dag er ég nokkuð viss um að ég hafi dottið í lukkupottinn án þess í rauninni að hafa áttað mig á því þegar það gerðist. Já og nú skal ég útskýra það nánar. Í janúar 2015 tók ég ákvörðun um að nú væri árið komið sem ég þyrfti virkilega að huga að breyttum lífsstíl. Ef ég héldi áfram á sömu braut þá myndi ég enda sem óánægð gömul og þreytt kona fyrir aldur fram, með of mörg aukakíló og allskonar líkamlega kvilla.  Nokkrum árum áður hafði ég verið greind með vefjagigt, ég glímdi við svefnörðugleika, fékk slæma bakverki, var með vöðvabólgu á háu stigi, fékk vonda höfuðverki og svo virtust fötin mín alltaf vera að minnka. Lífið og tilveran fölnaði hægt og rólega án þess að ég í rauninni gerði mér grein fyrir því. Oft hafði ég tekið mig á, náð ágætum árangri og dottið svo aftur í sama farið. Fljótlega eftir hvert fall virtust kílóin mín þyngjast og málbandið mitt hlaut að vera orðið eitthvað vitlaust. Þetta var orðinn endalaus tilfinningarússíbani af áhyggjum um allt og allt. Það var bara svo erfitt að viðurkenna það fyrir sjálfri mér að ég þyrfti raunverulega að taka mig á og að framtíðin og heilsan væru í húfi.


2015 rann upp og ég búin að taka ákvörðun, daman ætlaði í einkaþjálfun sem ég og gerði. Skrefin voru þung, stór og erfið fyrstu vikurnar. Fljótlega fór þó að bera á að skrefin urðu léttari, það varð jafnvel breyting dag frá degi, ég varð ánægðari með sjálfa mig og var farin að finna fyrir tilhlökkun á leið í ræktina. Ég hætti meira að segja að nota aðhaldsbolinn undir ræktarbolinn og fór fyrir alvöru að takast á við mín vandamál. Tveimur mánuðum síðar voru 10 kíló fokin, 34 cm horfnir, bakið orðið stæltara og ég farin að trúa því að ég gæti í alvöru komist aftur í gott form. Áfram hélt ég ótrauð fram á sumar og endaði með að koma sjálfri mér mikið á óvart með því að hlaupa 5 kílómetra hlaup á rúmum hálftíma. Svo fór ég bara í sumarfrí og gleymdi mér alveg í sumargleðinni!

Haustið kom í allri sinni litadýrð en minna var um ferðir í ræktina. Ég bara kom mér ekki af stað aftur eftir sumarið „á morgun fer ég í ræktina“ hugsaði ég daglega, en svo leið sá dagur og dagurinn þar á eftir og þar á eftir... Bakið fór að stríða mér aftur, skrefin urðu þyngri og vegurinn í ræktina virtist lengjast á hverjum degi. Það var þá sem ég fékk símtalið frá Mörtu Maríu og það var þá sem hún tjáði mér að ég hefði verið valin til að vera með í lífsstílsbreytingu Smartlands og Sporthússins. Ég held að fáir geri sér í raun grein fyrir hversu fáránlega rétt tímasetning á símtali þetta var fyrir mig. Vegalengdin í Sporthúsið í Kópavogi er kannski örlítið lengri en í Sportstöðina á Selfossi, það var bara þetta sem ég þurfti á þessum tímapunkti, ég vissi það strax!

Í dag er ég með nokkuð fastmótað matarplan, ég hreyfi mig reglulega, stundum tvisvar á dag ef mig langar til þess. Ég fer tvisvar í viku til Reykjavíkur í Sporthúsið og á móti fer ég í ræktina á Selfossi. Við stelpurnar í lífsstílsbreytingunni hittum einkaþjálfarann okkar hana Lilju Ingvadóttur tvisvar í viku og tökum góða klukkutíma æfingu með tilheyrandi svita og látum. Á móti hef ég valið skemmtilega blöndu af hóptímum líkt og zoomba, body balance og cxworx. Þegar ég er ofur dugleg tek ég auka brennslu á hlaupabrettinu eða í tækjasalnum og fer sem oftast í góðan göngutúr með eiginmanninum og börnunum. Nú eru fötin mín farin að stækka og ég er ekki frá því að bráðum fari að glitta aftur í magavöðvana mína! Lífið er bara töluvert yndislegt.

Við mannfólkið lifum stundum ótrúlega flóknu lífi og vonumst of oft eftir því að vandamálin lagist á einhvern furðulegan hátt, töfralausnir finnist á okkar ólíklegustu vandamálum eða hreinlega óskum við þess að detta í lukkupottinn. Lukkupotturinn minn var ég sjálf. Ég tók ákvörðun um að byrja, ég tók ákvörðun um að sækja um í lífsstílsbreytingunni og það er líka mín ákvörðun á endanum að komast á topp tilveru minnar. Ég er bara svo heppin að hafa fjölda fólks í kringum mig sem er til í að leiðbeina mér áleiðis. Mín orð til þín eru ævaforn og voru rituð upphaflega af Rómverskum kennara og skáldi að nafni Decimius Magnus Ausonius , orðin eru til þín sem langar að taka ákvörðun, þau eru til þín sem telur þig ekki geta það sem þig langar: "Byrjaðu. Hálfnað verk þá hafið er. Þá er helmingurinn enn eftir. Byrjaðu aftur og þú hefur lokið verkinu".


Púkaprinsessa í lífsstílsbreytingu

Ég er púkaprinsessa. Púkann má ímynda sér á annarri öxl minni en þá er að sjálfsögðu engill á hinni. Svo rífast þeir tveir og ég með! Vá þetta hljómar auðvitað eitthvað skrítið, en ég er nokkuð viss um að flestir kannist við að eiga rökræður við samviskuna sína. Það er bara svo miklu skemmtilegra að setja þetta í einhverskonar myndlíkingu. Það getur meira að segja orðið sprenghlægilegt á tímabilum. Ef við höldum áfram með þessa myndlíkingu þá hefur nú engillinn oftar fengið að ráða þegar kemur að stærri og mikilvægari málefnum en ég hef þó lengi ef ekki alla tíð verið dágóð púkaprinsessa í mér, sérstaklega varðandi hluti sem ég hreinlega taldi skipta minna máli.

Þegar haldið er af stað í lífstílsbreytingu, ég tala nú ekki um fyrir framan augum almennings þá vandast málið. Maður vill ekki fyrir nokkra muni vera þekktur fyrir að standa sig illa, hreyfa sig lítið eða vera óvandvirkur varðandi val á fæðutegundum eða í vali á  viðfangsefnum hins daglega lífs. Einbeitingin fer á fullt og allt skal gert fullkomið, svoleiðis er ég bara! Enda hef ég verið ofur dugleg síðustu tvær vikur og sett litla púkann minn til hliðar, ég sagði honum hreinlega bara að hvíla sig og tileinka sér betri lífsstíl með mér.

Púkinn hefur átt erfitt síðan og hefur auðvitað reynt aftur og aftur að fá mig til að gera eitthvað sem ég fengi auðvitað massa samviskubit yfir. Púkinn spurði mig til dæmis um helgina: „hvernig væri nú bara að hafa „kósý kvöld“ með börnunum, þau mega það , kaupa nammi, dorritos og búa til eðlu?“ Ég slefaði alveg við tilhugsunina, maginn hrópaði á nammi og ég var komin út í sjoppu í huganum. Engillinn var sem betur fer snöggur að grýpa inn í þessa óheilbrigðu hugarleikfimi og kom með mun betri hugmynd; poppkorn og kristall klikkar ekki. Ég var sátt!

Púkinn aðlagast hægt og rólega og mun að lokum skilja þetta, ég er handviss um það. Hann kannski fer aldrei, en mun klárlega breyta hugmyndum sínum með tímanum! 
Það sem er svo yndislegt við uppákomur sem þessar er að upplifa sigur þegar maður breytir rétt. Ég ætla ekki að ganga svo langt að segja að ég muni aldrei fá mér eðlu eða nammi aftur, en þegar að því kemur þá á ég inni fyrir því.

Við spariguggurnar í þessari frábæru lífsstílsbreytingu erum svo ótrúlega heppnar að hafa frábæra konu sem einkaþjálfara. Sú kona heitir Lilja Ingvadóttir og stendur þétt við bakið á okkur og peppar mann upp þegar þess þarf. Hún fær matardagbók senda frá mér á hverjum degi, fer yfir hana og bendir á hvað er gott og/eða hvað ég mætti gera betur. Það er alveg ótrúlegt hvað það skiptir miklu máli að skrifa niður samviskusamlega allt sem þú borðar, ég tala nú ekki um ef að einhver á að fara yfir það,  þú klárlega borðar réttar, minna og oftar!  

Í vikunni fékk ég leiðinda pest og í kjölfar hennar fór púka og englastríðið á fullt. Er ekki alveg sjálfsagt að leyfa sér eitthvað meira þegar maður á bágt? Púkinn minn var alveg á því að það hlyti að vera, ég og engillinn vorum alls ekki sammála honum og sögðum honum bara að hypja sig! Sú leiðindar staðreynd er því miður að í gegnum tíðina hafa einmitt veikindi oft rústað frábærri rútínu hjá mér. Þegar fríksleikinn mætir aftur er oftar en ekki ótrúlega erfitt að koma sér aftur af stað. Ég var hörð í þetta skipti og tók meðvitaða ákvörðun um að ef ég á eitthvað bágt þá er það bara þannig, nammi og eitthvað óhollt er ekki að fara að laga það.

Ég ætla að enda þetta á svo sannri setningu sem Lilja sagði við mig um daginn eftir að ég hafði verið í púka og englastríði vegna sætinda sem voru á boðstólnum í matarboði sem ég var í  (engillinn vann).  „Láttu ekki skammtíma gleði koma í veg fyrir langtíma vellíðan“

Þangað til næst
g..


Við erum það sem við hugsum

Nú er heil vika liðin síðan við spariguggurnar byrjuðum í lífsstílsbreytingu Smartlands og Sporthússins í Kópavogi. Það gekk á ýmsu í vikunni og harðsperrur urðu daglegur vinur minn. Ég fór í ræktina á hverjum degi, hljóp, lyfti, teygði, spriklaði, svitnaði, púlaði og hugsaði þegar ég var við það að gefast upp:"ég get, skal og vil". Fyrir mér er þetta allt ákvörðun og ef hugurinn er ákveðinn í að standa sig þá gerast hlutirnir!

Núna er ég farin að borða frekar hreina fæðu, forðast sykur aðra óhollustu og óþarfa. Millimál eru þarfaþing og ég reyni að fá mér ávexti, möndlur eða prótein reglulega yfir daginn. Ég tek góða blöndu af vítamínum og olíum á morgnana og passa mig að freistast ekki til að bregða útaf planinu mínu. Um helgina fór ég með Kristal og harðfiskpoka í partý, það er nýtt! Og viti menn ég er strax farin að finna mun á fötunum mínum. Það er er líka töluvert mikil hvatning að vigtin er alveg ofsalega góð vinkona mín í þessu öllu saman.

Ein pæling... Það er ótrúlega mikið innprentað í okkur mannfólkið að vilja ekki tapa. Að tapa einhverju er neikvætt eða hálfgerð skömm, það vill enginn vera titlaður "tapari". Við höfum jafnvel tilhneygingu til að fela eða breiða yfir sannleikann ef eitthvað mistekst. En samt sem áður viljum við flest læra af mistökum okkar og gera betur næst ekki satt? Já þetta er flókið!

Tökum smá dæmi: ef við missum eitthvað brothætt eða dýrmætt úr höndunum þá fáum við kítl í magann, auka hjartslög og svitadropa á ennið. Hugurinn endurtekur í sífellu: "ekki brotna... gerðu það ekki brotna!" Af einhverjum orsökum viljum við alls ekki missa þennan tiltekna hlut sama hversu miklu máli hann skiptir okkur í raun og veru. Að "missa eitthvað" hljómar einmitt í mínum huga sem frekar neikvætt orð. Orð sem tengist jafnvel sorg og söknuði. Slíkar tilfinningar viljum við forðast að upplifa ef við fáum einhverju ráðið. 

Með þetta í huga finnst mér furðulegt að við tölum alltaf um að hafa "misst" kíló og það hefur átt sér stað gífurlegt þyngdartap! Væri ekki réttara svona sálfræðilega séð að segjast hafa skilað kílóunum sem við þurftum ekki? Og að við höfum náð gífurlega góðum árangri í þyngdarstjórnun! Þannig væri hægt að koma í veg fyrir söknuð í undirmeðvitundinni og þá myndum við kannski líka losna við að reyna ómeðvitað 
að ná til baka aftur því sem við höfum "misst" eða þess sem við "söknum"! Þetta er auðvitað svolítið djúp pæling hjá mér sem hefur verið að þvælast um í kollinum á mér í langan tíma. Pæling sem á klárlega rétt á sér í mínum huga því ég tel að besti árangurinn náist með skýrum fókus og réttu hugarfari. Því ætla ég að breyta útaf fyrri vana og hugsa sumt alveg upp á nýtt ef svo ber undir. Ég hef engu að tapa!


Ég ætla að skila mínum aukakílóum núna því ég þarf ekki á þeim að halda. 

"Mundu að þú ert það sem þú hugsar" 

Þangað til næst
g...


Lögð af stað í langferð

"Viltu komast í besta form lífs þíns?" las ég í litla facebook spjallglugganum á tölvuskjánum mínum um daginn. Maðurinn minn hafði rekist á auglýsingu frá Smartlandi Mörtu Maríu og Sporthúsinu þar sem auglýst var eftir þátttakendum í lífsstílsbreytingu. Ég leit á tölvuskjáinn og hugsaði "auðvitað langar mig það" og svo lokaði ég tölvunni.

Dagurinn leið og örugglega sá næsti líka, en alltaf flögraði hugurinn annað slagið að þessari spurningu. Síðustu alltof mörg ár hef ég nefninlega ákkúrat verið í endalausri leit  betra eintaki af sjálfri mér. Sú leit hefur þó lang oftast ekki skilað mér neinu nema skammtíma lausnum sem hafa horfið út í tómið að lokum... og gleymst þar! 

En jæja... að tveimur dögum liðnum var þetta enn í huga mér svo ég settist niður með símann minn og ákvað að fylla út umsóknina. Það fór nú ekki betur en svo að þegar ég hafði fyllt alla umsóknina vel og vandlega út, ákvað síminn minn að frjósa og hreinlega deyja í nokkrar sekúndur í höndununm á mér... Mig langaði að gráta! Ég henti símanum í sófann og sagði "þá á ég bara ekkert að gera þetta!!" Maðurinn minn áttaði sig strax á hvað var í gangi og benti mér ofur varlega á að það væri eflaust betra að sinna svona hlutum við tölvuna. Svo sagði hann með silkimjúkri röddu að það væri nú ekki gott að hætta við allt saman áður en ég væri búin að senda inn umsóknina, það færi mér ekki að láta svona. Ég hugsaði þetta vel og vandlega næstu nótt, í draumalandinu, og ákvað morguninn eftir að fylla umsóknina út aftur. Það kom líka nettur hjartsláttur og kítl í magann þegar ég smellti á "senda umsókn"!! 

Nú sit ég heima í sófanum mínum góða (með tölvuna í fanginu) að skrifa þetta og sé ekki í eina sekúndu eftir þessari ákvörðun minni. Næstu 12 vikur fæ ég nefninlega að vera með í ferðalagi sem getur ekki annað en haft góðar afleiðingar í för með sér. Vegurinn er kannski langur og hlykkjóttur, ég er samt nokkuð viss um að í þetta sinn komist ég langt. Ég geri mér auðvitað grein fyrir að þetta er langferð sem getur verið erfið... En ég ætla vil og skal! embarassed Með mér í för verða fjórir aðrir þátttakendur sem ég hlakka mikið til að kynnast, svitna, grenja og púla með. tongue-out

Auðvitað er ég pínu stressuð og veit jafnvel ekkert alveg hvað ég er að fara út í! Ég er samt fædd með ævintýraþrá í hjarta og leyfi því hjartanu að ráða en hef ögn af skynsemi með í för!

"If you can imagine it, you can achieve it.
If you can dream it, you can become it"
William Arthur Ward

Þangað til næst 
g..


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband