Ár breytinga

Árið 2015 er ár hugarfarsbreytinga hjá sjálfri mér. Árið sem ég stóð upp og viðurkenndi mig sigraða. Árið sem ég viðurkenndi að ég þyrfti aðstoð til að komast á rétta braut í annars skemmtilegu ferðalagi sem lífið er. Það hefur svo margt breyst við þessa ákvörðun mína, ég er sjálf í rauninni steinhissa á því þegar ég horfi til baka. Ég væri að ljúga ef ég segði að þetta væri ofur einfalt og alls ekki erfitt. Sannleikurinn er sá að ég hef fundið jákvæðan mun á mér bæði andlega og líkamlega milli vikna og það minnir mig á að ég er að gera eitthvað rétt! Árið mitt byrjaði í einkaþjálfun hjá Fríðu Steinarsdóttur í Sportstöðinni á Selfossi, ég mæli algerlega 100% með henni. Svo tók Lilja Ingvadóttir "ofursparigugga" við mér hjá Sporthúsinu í Kópavogi. Hún er snillingur sem vert er að leita til því hún var sjálf fyrir nokkrum árum með of mörg aukakíló í eftirdragi og kann öll trixin í bókinni.

Lífið og tilveran er órúlegt og spennandi ferðalag. Ferðalag sem er uppfullt af allskonar samferðafólki, upplifunum, upákomum, sorgum, gleði og sigrum. Sumu getum við ráðið og valið sjálf en svo eru aðrir hlutir og upplifanir sem við fáum alls ekki að velja fyrir okkar ferðalag. Ég hef töluvert verið að hugsa um ákkúrat þessa hluti undanfarið, þessa hluti og uppákomur sem bíða okkar handan við hornið og birtast okkur jafnvel þegar síst skyldi. Líklega væri hægt að búa til góða Hollywood mynd um það sem drifið hefur á mína daga, en það er önnur saga! Við mannfólkið erum tilfinningaverur og allar stærri uppákomur í okkar lífi hafa án efa mikil áhrif á okkur andlega og líkamlega. Og þar langar mig að staldra aðeins við og skoða sjálfa mig.  

Í kringum flesta erfiðleika og stærri viðburði í mínu lífi hef ég sóst í að leita huggunar í mat. Ég hef sannfært sjálfa mig um að ég eigi svo sannarlega skilið að fá mér einn feitann hamborgara, ég hafi gott af því að hafa kósýkvöld með fullt af nammi og góðri bíómynd eða það lagist allt með pizzakvöldi í faðmi vina og fjölskyldu. Matarlystin hefur verið lítil allan daginn, ég hef jafnvel ekkert borðað þar til ég hef troðið í mig einhverju seinnipart dags. Ég er viss um að margir kannist við svona mynstur. Svo talar púkinn á öxlinni við mig og segir: "þetta er allt í lagi þú ert ekkert búin að borða í allan dag, þú verður að næra þig!" Þegar svona hefur staðið á í mínu lífi hef ég alltaf trúað púkanum þó svo að undir niðri viti ég auðvitað betur.

Ég get reyndar viðurkennt að ég hef alltaf átt í erfiðleikum með að halda góðri rútínu á mínum matarvenjum. Þá meina ég að borða reglulega yfir daginn frá því ég vakna. Allt of oft hef ég sleppt morgunmat og jafnvel líka hádegismat. Loksins þegar ég finn þörf fyrir að borða þá sækist ég í fæðu sem kýlir upp blóðsykurinn og gefur mér snögga orku. Við vitum öll að sú fæða hlýtur að vera rík af kolvetnum! 

Marg oft hef ég byrjað í einhverjum megrunarkúrum og alltaf leitað eftir einhverjum töfralausnum sem ættu helst að virka fljótt og vel. Kílóin ættu auðvitað helst að hrynja af mér einn tveir og bingó og ég að hafa sem minnst fyrir því. Draumur ekki satt? Það finnst púkanum mínum á öxlinni allavegana því þá fær hann klárlega að njóta sín í botn.

Púkagreyið mitt á erfitt þessa dagana því það er svo lítið hlustað á hann, þó svo að lífið bjóði upp á allskonar uppákomur þá held ég mínu striki. Púkinn horast niður hægt og rólega og hann hlýtur að fara að játa sig sigraðann fljótlega. Í dag passa ég mig nefnilega á að fá mér alltaf morgunmat, ég tek inn vítamín og góðar olíur, fæ mér ávexti, möndlur og prótein í milli mál og borða helst tvisvar á dag grænmeti, salat, kjöt og fisk. Ég forðast brauð, sykur, hveiti, nammi og þess háttar. Ég reyndar leyfi mér einn nammidag í viku og hlakka til hans alla vikuna. Á nammideginum borða ég eins og venjulega þar til um kvöldmat þá fæ ég mér það sem mig langar að borða og um kvöldið má alveg fá sér ís og jafnvel smá nammi, ég passa mig bara að missa mig ekki alveg! Galdurinn er að vera skipulagður og undirbúa daginn fyrir fram, taka nesti í vinnuna og láta ekki undan  öllum freistingunum sem verða á vegi manns. Púkinn minn reynir reglulega að plata mig út í einhverja vitleysu en ég sigra hann nú oftast. Enda er hann að horast blessaður!

Hreyfing er stór þáttur í minni vellíðan í dag. Ég mæti í einkaþjálfun tvo daga vikunnar og að öllu jöfnu reyni ég að fara í ræktina 5-6 daga vikunnar. Auðvitað koma dagar sem eru erfiðari, ég löt og "nennið mitt" eitthvað bilað, annars væri ég ekki mannleg. Þannig dagar líða hjá og áfram heldur ferðalagið. Oftast plata ég mig meira að segja af stað og kem endurnærð heim eftir gott púl í ræktinni. Um daginn var ég einmitt eitthvað ofur þreytt og steinsofnaði í sófanum mínum góða. Ég hrökk upp og áttaði mig á að zumba tíminn var byrjaður sem ég fer alltaf í. Í stað þess að loka augunum aftur og koma mér betur fyrir henti ég mér af stað með maskarann út á kinnar og æddi í tímann. Enda var ég ofur ánægð eftir á með sveitta og þreytta mig! Gullna reglan er að mæta því þá gerast hlutirnir.

Mig langar að ráðleggja þeim sem vilja komast í betra form að hugsa það sem langferð; góðir hlutir gerast hægt! Á þessu ári hafa tveir frábærir einkaþjálfara aðstoðað mig í átt að betra eintaki af sjálfri mér. Ég veit það núna að ég gerði það allra réttasta er ég tók þá ákvörðun að fara í einkaþjálfun. Það var stórt skref fyrir mig sem hefur borgað sig stórlega. Á 11 mánuðum hef ég ekki bara skilað 14 kílóum því ég er búin að styrkja mig all svakalega og auka þolið svo um munar. Ég sef betur og hef meiri trú á sjálfri mér og öllu því sem ég tek mér fyrir hendur! 

Ef þú vilt fá meiri orku og vellíðan, betra sjálfstraust og vera hreinlega glaðari og ánægðari með lífið og tilveruna byrjaðu þá þína langferð í dag! Mín hvatningar orð koma enn og aftur frá Lilju Ingavdóttur: „Láttu ekki skammtíma gleði koma í veg fyrir langtíma vellíðan“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband