Já ég er bara mannleg!

Það er óveður fyrir utan gluggann minn. Það er líka óveður innra með mér, óveður sem enginn sér. Það eru freistingar allstaðar, hvert sem ég lít, hvert sem ég fer.. Allstaðar! Það mátti auðvitað búast við því í desember, engu að síður er skellurinn sem desember er erfiður. Ef ég skoða facebook sé ég endalaust af girnilegum myndum af tertum, smákökum og mat. Ef mig dettur í hug að horfa á sjónvarpið hrannast inn hugmyndir í kollinn minn af bragðgóðu malti og appelsíni, girnilegum mat og þar fram eftir götunum. Það er líka konfekt í boði út um allt allstaðar, konfektið ásækir mig, kallar á mig og það vill mig... Nú er púkinn minn algerlega í essinu sínu! 

Jæja ég er bara mannleg, ég lét undan í gær. Það var tekið kósýkvöld á þetta með fjölskyldunni, jólabíó, kertaljós og knús. Ég hámaði í mig Stjörnu ostapopp og fékk mér súkkulaði og konfekt frá honum Nóa Siríus gamla. Þessu var auðvitað öllu skolað niður með hæfilega miklu af... vatni! Eins og mér þykir malt og appelsín gott þá er ég dauðfegin að hafa ekki opnað flöskuna sem bíður spennt eftir mér í ískápnum. Hún verður klárlega opnuð á jólunum! Súkkulaðið var samt pínu gott og svolítið vont. Það var reyndar aðallega vont í dag því maginn á mér fór í verkfall og grét hástöfum af sársauka, ætli sykurinn hafi ekki haft þessi áhrif?!

Nú þarf ég að setjast niður og ræða málin við púkann og engilinn. Jólin eru framundan og þá þarf að vanda sig, velja vel hvað og hvernig ég ætla að borða. Ekki ætla ég að missa af jólunum í allri sinni dýrð. Ekki ætla ég að liggja með magapínu af óhollustu áti heldur. Ég líklega lærði ýmislegt eftir gærkvöldið, ætli það hafi ekki bara verið gott að ég fékk mér óhóflega mikið af súkkulaði í gær? Það hefði verið verra að eyða aðfangdagskvöldi í magakrampa!

Óveðrið innra með mér einskorðast þó ekki einungis við þennan púkadans. Fyrir nokkrum dögum þurfti ég í litla aðgerð. Eftir aðgerðina tilkynnti læknirinn mér að ég yrði að vera allavega í viku frá líkamsrækt og í þrjár vikur mætti ég ekki fara í sund. Þessar fréttir voru óneitanlega ekki gleðifréttir miðað við að tvær vikur voru þá eftir af lífsstílsbreytingunni minni með Smartlandi Mörtu Maríu og Sporthúsinu í Kópavogi. Ég áttaði mig þó á að tærnar þyrfti ég að setja upp í loft og telja niður dagana þar til ég mætti fara í ræktina.

Síðustu daga hef ég semsagt talið dagana þar til ég má fara af stað aftur. Mínir nánustu hafa reyndar þurft að skamma mig aftur í sætið nokkru sinnum, ég var auðvitað á leiðinni út og ætlaði að sjálfsögðu beint í ræktina, -bara gera smá. Það er alltaf gott að eiga góða að sem hafa vitið fyrir manni. Ég ætla samt að svindla pínu og fara fyrr af stað, við skulum bara vona að læknirinn lesi þetta ekki! 

Eitt er þó ótrúlega fyndið og skrítið í þessu öllu saman. Ekki fyrir svo löngu voru sömu einstaklingar að reyna að lokka mig úr sætinu til að fara í ræktina. Þá mátti ég það en langaði bara alls ekki! 

Fyrir um korteri lagði ég af stað í 12 vikna ferðalag með nokkrum frábærum konum, konum sem mér er farið að þykja svo óendanlega vænt um. Nú er aðeins rúm ein vika eftir af "þessu" ferðalagi okkar. Æjj hvað tíminn líður, hann feikist um og flýgur út í buskann líkt og óveðrið inni í mér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband